Borun hitaveituholu í landi Hverhóla

Byrjað að dæla lofti í borholuna.
Byrjað að dæla lofti í borholuna.

Síðastliðna helgi var byrjað að bora hitaveituholu í landi Hverhóla í Lýtingsstaðahreppi hinum forna en tilgangur holunnar er að auka rekstraröryggi hitaveitunnar. Holan er 118m djúp  og benda fyrstu mælingar til þess að vatnsmagn í holunni sé töluvert meira en í þeirri sem nýtt er í dag. Hitastigið á vatninu er svipað og í núverandi holu eða um 66°C. 
Borun holunnar gekk með ágætum en þegar verið var að ljúka borun um hádegi þriðjudaginn 4. desember myndaðist samgangur á milli holunnar og núverandi borholu. Afleiðingar þessa samgangs urðu þær að óhreinindi komust í núverandi holu sem ollu því að dæla sem var í holunni hætti að virka og vatnslaust varð á hitaveitukerfinu. 

Brugðið var á það ráð að nýta nýju holuna með því að blása niður í hana lofti eftir stálrörum niður á um 60m dýpi sem verður til þess að vatn þrýstis upp í topp holunnar. Vatnið er síðan leitt frá holutoppnum í stórt kar þaðan sem því er dælt inn í loftskiljutank og síðan inn á dreifikerfi hitaveitunnar. Reynslumiklir starfsmenn Skagafjarðarveitna unnu fumlaust og örugglega að þessari framkvæmd og var byrjað að dæla heitu vatni á kerfið aftur um kl 21:30. Vinna stóð síðan fram á nótt við það að tryggja öruggt flæði um allt hitaveitukerfið. 

Nýrri dælu verður komið fyrir í eldri holunni á næstu dögum og má búast við einhverjum truflunum á meðan unnið verður að því koma nýrri dælu fyrir og unnið að tengingum. Skagafjarðarveitur munu leitast við að upplýsa notendur á svæðinu um stöðu mála eftir fremsta megni og biðjast velvirðingar á þeim óþægindum sem rekstrartruflanir hafa í för með sér. 


Svæði

Skagafjarðarveitur   |  Borgarteig 15  |  550 Sauðárkrókur  |  Sími 455 6200  |  skv@skv.is