Saga hitaveitanna

Hitaveitan í Varmahlíð
Frá alda öðli hefur heita vatnið í Reykjarhóli verið nýtt almenningi til hagsbóta. Í Sturlungu kemur til dæmis fram að konur hafi farið að Reykjarhóli til þvotta. Í gegnum aldirnar er oft minnst á jarðhitann í hólnum og nýtingu á honum t.d. í ferðabók Olaviusar um 1775 og í sóknarlýsingu frá 1842. Þegar kom fram á 20. öld hófst nýting jarðhitans að marki. Laust eftir aldamótin stóð Christian Popp kaupmaður á Sauðárkróki fyrir tilraunum að rækta kartöflur við jarðhita og stofnaði ásamt mönnum í Seyluhreppi Garðyrkjufélag Seyluhrepps árið 1904. Upphaflega var áætlað að fá allt að 1000 tunnu uppskeru af kartöflum en ræktunin varð þó aldrei í svo stórum stíl. Garðyrkjufélagið var leyst upp árið 1920 eftir áralangt stríð við illgresi og aðrar plágur sem hrjá kartöflubændur. Á 20. öld voru reist tvö laugarhús til þvotta, hið fyrra árið 1921 en hið síðara um miðja öldina og einnig nýttu sum heimili í Seyluhreppi jarðhitann í Reykjarhólnum til sláturgerðar, þófs á tóvinnu og bökun á brauði. Mynd: Frá vígslu sundlaugar í Varmahlíð árið 1939.

Árið 1912 fékk ungmennafélagið Fram í Seyluhreppi leigða landspildu undir sundlaugarstæði. Var þá um sumarið byggð sundlaug úr torfi og hófst kennsla í lauginni sama sumar. Var kennt í lauginni flest sumur til 1928. Á árunum fyrir síðari heimstyrjöld komu fram hugmyndir um uppbyggingu héraðsskóla í Varmahlíð og árið 1941 varð jörðin Reykjarhóll eign hins svokallaða Varmahlíðarfélags sem eignaðist auk þess hitaveituréttindin. 
Fyrsti liðurinn í uppbyggingu alþýðuskóla í Varmahlíð var gerð nýrrar sundlaugar og var hún byggð á árunum 1938-1939. Var laugin rúmir 33 metrar á lengd og 12,5 metra breið. Sundlaugin var vígð 27. ágúst 1939 og gegnir enn sínu hlutverki, þótt hún hafi fengið verulega andlitslyftingu á síðustu árum. Jarðhitinn sem nýttur var í fyrstu var í þremur meginuppsprettum í austanverðum Reykjarhólnum. Hin efsta er nefnd Háihver en þar steypti Vigfús Helgason upp þró árið 1940 og leiddi heitt vatn frá hvernum að Varmahlíð. Utan og neðar var Þófaralaug. Úr þeirri uppsprettu voru lagðar lagnir í hús í Varmahlíðarhverfinu eftir því sem þau byggðust.

Árið 1972 var borað austan í Reykjarhólnum í tengslum við fyrirhugaða skólabyggingu. Við borunina fékkst meira vatn en þurfti að nota við skólann og var þá Hitaveita Varmahlíðar stofnuð og lögð hitaveita um íbúðarhverfið. Frá henni voru einnig lagðar leiðslur að Löngumýri og að Húsey. Í byrjun janúar 1986 undirritaði sýslunefnd Skagafjarðarsýslu og hreppsnefnd Seyluhrepps hitaveitusamning sem fól í sér að Seyluhreppur tók við öllum rekstri Hitaveitu Varmahlíðar og hét veitan því að greiða Menningarsetri Skagfirðinga í Varmahlíð 7% af sölu veitunnar á heitu vatni. 
Það ár var lögð hitaveita í Víðimýrartorfu og Álftagerði, en árið 1988 var unnið að hitaveitu út Langholt allt að Marbæli. Sumarið 1997 var boruð hola rétt vestan og norðan við háhólinn. Hún var 427 metra djúp og gefur a.m.k. 40 l/sek af 96 gr. heitu vatni. Það vatn er enn ónotað og bíður síns tíma. Sama ár voru Hitaveita Seyluhrepps og Hitaveita Sauðárkróks sameinaðar í einu fyrirtæki, Hitaveitu Skagafjarðar. Tveimur árum síðar var lokið lagningu hitaveitu milli Sauðárkróks og Varmahlíðar.

Heimildir: Byggðasaga Skagafjarðar II, bls. 221. 
Kristmundur Bjarnason: Sýslunefndasaga Skagfirðinga II, bls. 221 og 228

Hitaveita Sauðárkróks
Menn hafa lengi vitað um að jarðhiti væri í landi Sjávarborgar. Í Áshildarholtsvatni var t.d. ævinlega vök á vetrum vegna jarðhitans. Í þingræðu árið 1937 vék Magnús Jónsson prófessor að því að hugsanlega mætti þar fá heitt vatn til upphitunar fyrir húsin á Sauðárkróki. Í Sæluviku árið 1943 gerðu þeir Friðrik Hansen hreppsnefndaroddviti og kennari og Ólafur Sigurðsson bóndi í Hellulandi sér ferð að uppsprettunum til að reyna að mæla hitann og næstu ár varð vart aukins áhuga á að nýta sér jarðhitann.

Mynd:Bor á holu í Borgarmýrum 1965. Mynd Kristján C Magnússon

Eftir nokkrar rannsóknir varð ljóst að um hveravatn var að ræða og að minnsta kosti 55 gráðu heitt og því vel nýtanlegt til húshitunar. Árið 1949 var gerður hólmi út í Áshildarholtsvatni og borað niður á annað hundrað metra dýpi. Fengust við það um 23 l. sek. af 70 gráðu heitu vatni en samt sem áður dugði það tæplega fyrir Sauðárkrók í verstu vetrarfrostum. Næstu árin var unnið hörðum höndum að því að leggja hitaveitu um Sauðárkrók.

  

Jón Nikódemusson við borinn góða. Mynd: Kristján C. Magnússon

Þann 1. febrúar 1953 fékk fyrsta húsið á Sauðárkróki heitt vatn og fljótlega fór vatnið að streyma í öll hús á staðnum. Árið 1959 var orðið ljóst að það vatnsmagn sem fundið hafði verið myndi ekki duga fyrir vaxandi stað eins og Sauðárkrók. Þrátt fyrir ýmsar tilraunir til að auka vatnsmagnið t.d. með því að sá annálaði hagleiksmaður Jón Nikódemusson útbjó dælu til að létta á uppstreyminu var ljóst að bora þyrfti á nýjum stað. Jarðbor sem Jón hafði smíðað var notaður við boranir á næstu árum en ekki tókst að finna nægilegt vatnsmagn til að leysa bráðasta vanda hitaveitunnar. Árið 1964 var svo komið að hver einasti vatnsdropi sem hitaveitan hafði yfir að ráða var seldur. Ári síðar hljóp á snærið hjá hitaveitunni. Nú skyldi djúpborun reynd og í júní 1965 var búið að bora 345 metra djúpa holu sem úr streymdu 20 l sek. af 71 gráðu heitu vatni.

Sauðárkrókur uppúr 1960. Mynd: Páll Jónsson

Vatnsskortur var því úr sögunni í bili. Sama ár var hafin borun eftir heitu vatni í Borgarmýrum sem nú voru orðnar eign Sauðárkróks en tilheyrðu áður Sjávarborg. Sú hola sem þá var boruð markaði upphaf þess að heitavatnsvinnsla hitaveitunnar á Sauðárkróki fluttist inn í bæjarlandið. Á næstu árum voru boraðar þrjár holur í Borgarmýrum, en steypt upp í holurnar í Sjávarborgarlandi. Úr þessum þremur holum koma sjálfrennandi 140 lítrar á sekúndu og mun það vera mesta sjálfrennsli á lághitasvæði, næst á eftir Deildartunguhver í Borgarfirði. Íbúar Sauðárkróks og nágrennis munu því ekki þurfa að óttast skort á heitu vatni í framtíðinni. Hitaveita Sauðárkróks var sameinuð Hitaveitu Seyluhrepps um áramótin 1997-1998 og úr varð Hitaveita Skagafjarðar.

Heimildir: Sveinn Þórðarson: Iðnsaga Íslendinga, Auður úr iðrum jarðar, bls. 374-385. 
Kristmundur Bjarnason: Saga Sauðárkróks.

Hitaveitan Steinsstöðum
Við Steinsstaði eru vatnsmiklar uppsprettur 50-63 gr. heitar. Þar var áður fyrr svokallaður Þófarabálkur, þar sem fólk þvoði þvotta og voru steyptar þrær sem enn eru sýnilegar í þeim tilgangi. Þá er Steinsstaðalaug talin vera einn af allra fyrstu sundkennslustöðum á Íslandi. Árið 1927 var byggð steinsteypt sundlaug sem náði að aðaluppsprettu vatnsins. Síðar, eftir að ný sundlaug var tekin í notkun, var gerður brunnur í gamla sundlaugarbotninn og hluta uppsprettuvatnsins safnað þar í. Síðan var dælt úr brunninum heitu vatni til notkunnar í nýrri sundlaug og til upphitunar á húsum í byggðakjarnanum á Steinsstöðum. Jafnframt var borað eftir vatni sem var einnig notað til upphitunar á gróðurhúsum á svæðinu.  Heitt vatn er nú notað við upphitun á öllum húsum í Steinsstaðahverfinu.

Borhola Steinsstöðum 1965. Mynd: Jón Jónsson

Heimildir: Örnefnaskrá Rósmundar Ingvarssonar frá Hóli. 
Gögn hitaveitu varðveitt í Héraðsskjalasafni Skagfirðinga.

Svæði

Skagafjarðarveitur   |  Borgarteig 15  |  550 Sauðárkrókur  |  Sími 455 6200  |  skv@skv.is